Heimsókn til Kita Gleimstrolche Haus 2 í Berlín

Leikskólinn Klambrar fór að hitta þýskan leikskóla í Berlín, en þau komu einmitt að heimsækja okkur október síðastliðinn. Kita Gleimstrolche, Haus 2 er fjögurra deilda leikskóli með 95 börn á aldrinum 10 mánaða til 6 ára. Ein deild (rauða deildin) er með börn á aldrinum 10 mánaða til 2ja ára og þar fá þau öruggt umhverfi til þess að læra á leikskólalífið og lýðræði skólans. Hinar deildirnar þrjár (gula, græna og bláa deildin) eru aldursblandaðar, með börn á aldrinum 2 – 6 ára. Kita Gleimstrolche er skóli án aðgreiningar með opið rými, en það þýðir að börnin fara hvert sem er og fá að vinna með það sem þau hafa áhuga á hverju sinni. Kennarar þurfa svo að sjá til þess að þeir séu á öllum starfsstöðum svo börnin geti notið sín í þessu frjálsa flæði.

 

Hverja morgna er samverustund kl. 09:00 þar sem börnin geta rætt um það sem þeim liggur á hjarta. Fyrir hádegi á mánudögum og föstudögum er síðan hópastarf innan hverrar deildar fyrir sig. Á föstudögum hittist Kinderparlament, eða barna Alþingi, ásamt einum kennara. Þar fá börnin tækifæri til að koma skilaboðum samnemenda sinna á framfæri ásamt því að finna út úr því hvernig hægt er að leysa hvert mál fyrir sig. Börnin sem fara sem fulltrúar í Kinderparlament eru kosin af samnemendum sínum á hverju ári. Einungis elstu börnin fá að bjóða sig fram og það fara þrír fulltrúar af hverri deild. Til þess að stuðla að jafnrétti og hlutleysi kemur kennari með þeim af ungbarna deildinni. Með því komast líka upplýsingarnar af fundunum til skila til ungbarna deildarinnar. Í ár vildi ekkert barn af grænu deildinni bjóða sig fram í Kinderparlament og fengu því hinar deildirnar tvær að hafa auka fulltrúa. Síðan þarf að velja hverjir fara yfir á grænu deildina í hverri viku fyrir sig til að koma beiðnum frá þeim til skila auk þess að skila upplýsingum til þeirra.

Kita Gleimstrolche vinnur mikið með foreldrum og er með sérstakt foreldrasamstarf, svokallað foreldrasetur. Foreldrar hittast einn laugardag í mánuði og halda Pálínuboð, hittast eftir skóla og vinna verkefni með krökkunum eða hittast og elda saman. Þetta hjálpar þeim að mynda sambönd sín á milli auk þess sem þetta hjálpar börnunum að finna til meira öryggis í skólanum, en öll þessi starfssemi fer þar fram. Kita Gleimstrolche er líka með foreldrafélag sem vinnur mjög svipað og foreldrafélög hér á Íslandi.

Eftir að Kita Gleimstrolche fékk stúlku til sín sem var alveg litblind og mjög viðkvæm fyrir birtu fóru þau að vinna með litakerfi sem kallast ColorADD, en það hjálpar litblindum að skilja liti og litablandanir. Hönnuður ColorADD heitir Miguel Neiva og hannaði hann merki fyrir hvern grunnlit. Með því að blanda síðan saman merkjunum er hægt að sjá og læra hvernig litir blandast. Kita Gleimstrolche merkti allar deildirnar sínar með viðeigandi litamerkingum og allt sem þau hafa litaskipt er merkt með þessum ColorADD kóða. http://www.coloradd.net/about.asp

Nokkrir starfsmenn í Klömbrum fóru ekki með til Berlínar en þau fóru í vettvangsferð í Dalskóla og skoðuðu hvernig starfið þar fer fram. Þeim fannst gaman að sjá hvernig unnið var með alla aldurshópa í listsköpun. Kennari á yngstu deild í Klömbrum fylgdist m.a. með listasmiðju í Dalskóla og sá þar barn uppgötva málninguna með öllum líkamanum. Barnið sat á bleiunni með málningu á höndunum. Eftir smá stund prófaði það að setja málningu á andlitið og síðan á restina af líkamanum. Þetta fannst kennaranum í Klömbrum alveg sérstaklega skemmtilegt að horfa á þar sem barnið var svo upptekið af því sem það var að gera og naut sín í botn.

Frá starfsfólki Klambra um Kita Gleimstrolche

„Hvað skólaumhverfið varðar þá fannst mér aðbúnaður nokkuð góður. Tekið var tillit til að mismunandi aldur hefði eitthvað fyrir stafni og þarna komu margar frumlegar hugmyndir fram.“

„Ég var heilluð af öllum klifurleiktækjunum. Börn elska að klifra og tala nú ekki um á yngstu deildum þar sem hreyfiþroksinn er á fullri ferð.“

„Það stendur svo upp úr hvað hópurinn okkar er samstíga og við erum öll svo kappsöm um leikskólaumhverfið okkar og að gera það skemmtilegt og áhugasamt fyrir ólíka einstaklinga.“

„Ég var afskaplega hrifin af Kinderparlamentinu (barna alþingi?) og langar til að reyna að útfæra það hér.“

20170601 093923

Prenta | Netfang